Um Kristján

Kristján Eldjárn (1972-2002) stundaði gítarnám frá unga aldri í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Eyþóri Þorlákssyni og Páli Eyjólfssyni en var síðan nemandi Einars Kristjáns Einarssonar í Tónskóla Sigursveins og lauk burtfararprófi þaðan í klassískum gítarleik vorið 1996. Jafnframt nam hann rafgítarleik við djassdeild Tónlistarskóla FÍH sem nemandi Eðvarðs Lárussonar, Hilmars Jenssonar og Sigurðar Flosasonar og lauk burtfararprófi þaðan vorið 1995.

Á árunum 1997-1998 stundaði hann framhaldsnám í klassískum gítarleik við Tónlistarháskólann í Turku í Finnlandi og lauk einleikara- og kennaraprófi þar hjá hinum þekkta gítarmeistara Timo Korhonen.

Kristján lék jöfnum höndum á klassískan gítar og rafgítar og batt sig aldrei við eina tegund tónlistar. Hann kom fram með fjölda hljómsveita og hópa hér heima og erlendis. Hann lék inn á fjölmargar hljómplötur, sá um útsetningar og stjórnaði upptökum. Hann samdi og/eða lék tónlist við ótal leikverk, danssýningar, kvikmyndir, sjónvarpsþætti og auglýsingar. Hélt 1996-2000 á annan tug einleikstónleika víða um land og rúmlega 130 skólatónleika, m.a. á vegum verkefnisins „Tónlist fyrir alla“.

Fyrstu einleikstónleika sína að loknu námi hélt Kristján í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 7. júlí 1998. Í dómi um tónleikana í Morgunblaðinu 9. júlí segir Jón Ásgeirsson tónskáld þá hafa verið „...eldskírn, er setur Kristján þegar í hóp okkar bestu gítarleikara.“

Um minningarsjóðinn

Minningarsjóður Kristjáns Eldjárns gítarleikara var stofnaður af ættingjum Kristjáns, vinum hans og samstarfsmönnum eftir að hann lést 22. apríl 2002 tæplega þrítugur að aldri.

Minningarsjóðurinn verðlaunar árlega efnilega tónlistarmenn og afreksfólk í tónlist með drjúgu fjárframlagi, enda er það ásetningur sjóðsstjórnar að upphæðin skipti tónlistarfólkið verulegu máli og veiti því aukið svigrúm til að helga sig spennandi verkefnum á sviði tónlistar.

Árin 2003 og 2012 voru haldnir tónleikarnir „Í minningu Eldjárns“, þar sem fjöldi manns lagði sitt af mörkum, en allur ágóði rann óskiptur í sjóðinn. Fjáröflun hefur síðan fyrst og fremst byggst á frjálsum framlögum og sölu minningarkorta, auk þess sem sjóðurinn hefur gefið út hljómdiska og bók til sölu. Diskurinn Ljóð, hljóð og óhljóð með tónlist Kristjáns við ljóðalestur Þórarins Eldjárns, kom út 2003 en 2006 stóð sjóðurinn að endurútgáfu á þýðingu Kristjáns Eldjárns forseta á Max og Mórits eftir Wilhelm Busch. Diskurinn Gítarmaður kom út 2012 með upptökum af tvennum burtfarartónleikum Kristjáns. Diskarnir eru nú aðgengilegir á Spotify og öðrum tónlistarveitum.

16. júní 2007, þegar Kristján hefði orðið 35 ára, var í fyrsta skipti úthlutað úr sjóðnum og hlaut þá verðlaun Kristinn H. Árnason gítarleikari. Síðan hafa eftirtaldir tónlistarmenn bæst við:

Fyrri styrkhafar

Daníel Friðrik Böðvarsson

Daníel Friðrik Böðvarsson fæddist í Reykjavík 26. júní 1989. Hann lauk námi í djassgítarleik frá Jazz Institut Berlin árið 2014 undir handleiðslu Kurt Rosenwinkel, Greg Cohen og John Hollenbeck. Áður lærði hann m.a. hjá Rúnari Þórissyni í Tónskóla Do-Re-Mí, og Jóni Páli Bjarnasyni og Hilmari Jenssyni í Tónlistarskóla FÍH, lauk burtfararprófi þaðan af djassbraut 2010. Hann starfar sem gítarleikari og upptökustjóri í Reykjavík.

Daníel hefur frá unglingsárum verið virkur í íslensku tónlistarlífi og síðar í Berlín. Hann er stofnmeðlimur hljómsveitanna Moses Hightower, Pranke og Okuma. Hann hefur með hljómsveitum sínum samið tónlist fyrir leikrit í Þjóðleikhúsinu, Volksbühne og útvarpsleikrit hjá Deutschlandradio. Hefur í tvígang hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir lagasmíðar með Moses Hightower.

Daníel hefur veitt fjölmörgum liðsinni á ýmsum sviðum tónlistarinnar, í upptökum og á tónleikaferðum. Af þeim mætti nefna Adi Zukanovic, Bryndísi Jakobsdóttur, Gyðu Valtýsdóttur, Helga Hrafn Jónsson, Högna Egilsson, Kristínu Önnu, Möggu Stínu, Megas, President Bongo og Skúla Sverrisson. Einnig hefur Daníel komið fram sem gítarleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Schola Cantorum. 

Sem upptökustjóri hefur Daníel séð um plöturnar 33 eftir Teit Magnússon og Víðihlíð II eftir Snorra Helgason.

Nánari upplýsingar og efni er að finna á vefsíðunni soundcloud.com/danielfridrik

Hafdís Bjarnadóttir

Hafdís Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 17. ágúst 1977. Hún lauk námi frá kennaradeild Tónlistarskóla FÍH 2001 og burtfararprófi á djassgítar frá sama skóla 2002. Hafdís lauk BA-prófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands 2007, og meistaraprófi í tónsmíðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn 2009. Hafdís býr og starfar sem gítarleikari, tónskáld og tónlistarkennari í Reykjavík.

Í tónsköpun sinni leggur Hafdís megináherslu á að brjóta niður múra milli mismunandi tónlistarstíla. Á meðal fjölmargra verkefna sem hún hefur tekið sér fyrir hendur má nefna verk fyrir sinfóníusveit unnið upp úr prjónauppskrift, þrjár sólóplötur þar sem tónlistarstílum og hljóðfærum er blandað saman á óvenjulegan hátt, kammersveitarverk unnið upp úr línuritum og tölum frá íslensku bönkunum á árunum 2007-2009, tvö verk fyrir stórsveit, raftónlist fyrir innsetningar og hreyfimyndir, og ýmis pöntuð verk frá tónlistarhátíðum, einstaklingum og kammerhópum hérlendis og erlendis. Hafdís hefur komið víða fram sem rafgítarleikari og tónhöfundur bæði hér á landi og beggja vegna Atlantshafs, m.a. á tónlistarhátíðunum Iceland Airwaves, ISCM World Music Days, Jazzhátíð Reykjavíkur, Myrkum músíkdögum, Tectonics, heimssýningunni í Shanghai 2010 og Norrænum músíkdögum. Hún hefur hlotið ýmsar tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna auk þess sem hún hlaut Kraumsverðlaunin árið 2017.

Nánari upplýsingar um tónlistarferil Hafdísar má finna á vefsíðunni www.hafdisbjarnadottir.com

Reynir Hauksson

Reynir Hauksson fæddist á Hvanneyri 2. apríl 1989 og ólst þar upp. Hann hóf nám í Tónlistarskóla FÍH eftir að hafa spilað á hljóðfæri frá barnsaldri. Lauk þaðan burtfararprófi í klassískum gítarleik 2015 auk þess sem hann lagði þar stund á rafgítarleik og kennaranám. Stundaði hljóðfæra- og kennaranám við Høgskulen í Volda í Noregi 2015-2016 og nám í tónvísindum 2016 við Oslóarháskóla. Einkanám í flamenco-gítarleik hjá D. Alberto Fernández López í Granada 2016-2019 og hjá Jeronimo Maya í Madrid 2019-2020.

Út frá þessum grunni hefur hann unnið að margbreytilegum tónlistarverkefnum. Hann hefur fengist mikið við hljóðversvinnslu, gefið út 3 plötur með hljómsveitunum Þoku og Eldbergi sem innihalda hans eigin tónsmíðar frá framsæknu rokki yfir í rólegri tónlist undir djass- og þjóðlagaáhrifum, auk þess sem hann hefur leikið með á plötum annarra. Hann hefur stýrt upptökum og séð um eftirvinnslu sjálfur.

Reynir hefur haldið gítareinleikstónleika með áherslu á flamenco- klassíska og frjálsa spunatónlist víða um Ísland, Noreg og Spán. Einnig leikið eigin tónsmíðar á stórum tónleikum með fjölmennum hljómsveitum. Reynir hefur frá 2016 verið búsettur í Granada á Spáni og unnið þar sem flamencogítarleikari. Hann hefur einbeitt sér að því á undanförnum árum að kynna flamencotónlist fyrir Íslendingum, jafnt með tónleikum, danssýningum og masterklössum. Til þess hefur hann stefnt hingað ýmsum færustu flamencolistamönnum Spánar, til dæmis áðurnefndum Jeronimo Maya sem er einn af fremstu flamencogítarleikurum heims.

Meðal íslenskra tónlistarmanna sem Reynir hefur átt samstarf við eru þeir Einar Scheving, Ari Bragi Kárason, Unnsteinn Manuel Stefánsson og Björn Thoroddsen.

Nánari upplýsingar á vefsíðunni www.reynirdelnorte.com

Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir

Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1997. 
Hún hóf slagverksnám við Skólahljómsveit Grafarvogs 8 ára gömul og útskrifaðist frá tónlistarskóla FÍH með framhaldspróf í klassísku slagverki árið 2017. 
Meðfram klassíska náminu lærði hún á trommusett hjá Matthíasi Hemstock, einnig við FÍH.



Verkefni Lóu eru skemmtilega ólík. 
Hún hefur spilað með mörgum klassískum samspilshópum, til dæmis Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ungfóníunni, Kammersvetinni Elju, Slagverksdúettinum HalLó og í ævintýraóperunni Baldursbrá.
Ásamt því hefur hún líka spilað á trommusett og slagverk inn á plötur og í hljómsveitum margra ólíkra listamanna. Sem dæmi má nefna Salóme Katrínu, Gabríel Ólafs, Rakel, Raven, Halldór Eldjárn, Elínu Sif og Cell7.
Einnig hefur hún komið fram með mörgum mismunandi djass hópum, í batucada samba-slagverks hóp Samma og spilað á slagverk með hljómsveitinni Moses Hightower.
Lóa spilar nú í uppsetningu Þjóðleikhússins á Kardemommubænum, ásamt því að kenna á trommur og slagverk við Skólahljómsveit Vestur- og Miðbæjar.

Benedikt Kristjánsson

Benedikt Kristjánsson er fæddur árið 1987 á Húsavík. Hann hóf söngnám 16 ára gamall við Söngskólann í Reykjavík hjá Sibylle Köll og síðan Margréti Bóasdóttur. Samhliða námi söng hann í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðakórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Benedikt lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2007 þar sem Margrét Bóasdóttir var kennari hans.
Þar á eftir stundaði hann nám við "Hanns Eisler" tónlistarháskólann í Berlín, þar sem aðalkennari hans var Prof. Scot Weir. Hann útskrifaðist þaðan árið 2015. Hann hefur sótt Masterklassa hjá Peter Schreier, Christu Ludwig, Elly Ameling, Robert Holl, Andreas Schmidt, Thomas Quasthoff og Helmut Deutsch. 


Benedikt hlaut 1. verðlaun í alþjóðlegri Bach söngkeppni í Greifswald í júní 2011 og einnig verðlaun áheyrenda. Hann hlaut verðlaun áheyrenda í alþjóðlegu Bach keppninni í Leipzig sumarið 2012, fékk styrk úr Jean Pierre Jaquillat sjóðnum,  og var valinn Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum. Árið 2016 var hann valinn Söngvari ársins í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum.  Árið 2019 fékk hann OPUS Klassik verðlaunin fyrir "nýstárlegustu tónleika ársíns".  Þar flutti hann Jóhannesarpassíu Bachs í óvenjulegri uppfærslu, ásamt sembal og orgelleikara, og slagverksleikara.  Það sama ár kom út fyrsta sólóplata hans, ,,Drang in die Ferne“, og á honum eru tvinnuð saman sönglög eftir Franz Schubert og íslensk þjóðlög sem sungin eru án undirleiks. Platan fékk mikið lof gagnrýnanda í Þýskalandi og á Íslandi, og var líka tilnefnd sem plata ársins á ICMA(International Classical Music Awards, og á íslensku tónlistarverðlaununum 2020. Árið 2020 fékk hann sín þriðju verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum, sem söngvari ársins í sígildri og samtímatónlist. 


Hann hefur komið fram sem einsöngvari í mörgum af stærstu tónleikahúsum heims, eins og Fílharmoníunni í Berlín, Concertgebouw Amsterdam, Chapelle Royal í Versölum, og í Walt-Disney Hall í Los Angeles.  Einnig hefur hann sungið í Óperuhúsunum Staatsoper Berlin, Theater Kiel og Staatstheater Braunschweig.  Hann er tíður gestur á virtum tónlistarhátíðum, eins og Bachfest Leipzig, Musikfest Stuttgart, Händelfestspiele Halle og Oude Muziek Festival Utrecht. Hann hefur unnið með mörgum virtum stjórnendum, þar má nefna Reinhard Goebel, Reinbert de Leeuw, Peter Dijkstra, Vaclav Luks, Hans-Christoph Rademann, Vladimir Jurowski og Philippe Herreweghe.

Sóley Stefánsdóttir

Sóley Stefánsdóttir er tónlistarkona úr Hafnarfirði. Sóley útskrifaðist af tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands árið 2010. Árið 2010 kom út fyrsta smáskífa Sóleyjar Theater Island hjá þýska útgáfufyrirtækinu Morr Music og í kjölfarið gaf hún út sína fyrstu breiðskífu We Sink (2011) sem fékk afar góðar viðtökur. Síðan þá hefur hún gefið út tvær breiðskífur Ask the Deep (2015) og Endless Summer (2017) og að auki hefur hún gefið út þrjár smáskífur og unnið að tónlist fyrir leikhús, kvikmyndir, dansverk og stuttmyndir. Síðustu tíu ár hefur Sóley byggt upp dyggan aðdáendahóp um hvaðanæva af og ferðast mikið um heiminn til að flytja tónlist sína.

Sóley hefur hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem lagahöfundur ársins og plötu ársins fyrir plötu sína We Sink. Einnig var hún tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna og hlaut Kraumsverðlaunin 2012. Hún fékk Grímu tilnefningu fyrir tónlist sína í brúðuleikhúsinu Nýjustu Fréttir árið 2013 og hefur hlotið mikið lof um heim allan fyrir verk sín.

Í sumar vinnur Sóley að tónsmíðum fyrir leikritið Tréð sem sýnt verður á Listahátíð 2020 og leggur drög að kammerverki sem hún í haust mun fullvinna fyrir Tónlistarhátíð RÚV. Sóley mun einnig gefa út sína fjórðu breiðskífu í október og hefja tónleikaferð um heiminn í kjölfarið.

Ingibjörg Elsa Turchi

Ingibjörg Elsa Turchi fæddist í Reykjavík 21.nóvember 1988. Hún hóf tónlistarnám í forskóla Tónskóla Sigursveins á blokkflautu og lærði svo á hin ýmsu hljóðfæri fram á unglingsaldur, ss. flautu, píanó, gítar og harmonikku. Í menntaskóla stofnaði Ingibjörg með skólafélögum sínum hljómsveitina Rökkurró sem gaf út nokkrar plötur. Á ferli sínum hefur Ingibjörg spilað á rafbassa með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar eins og Bubba Morthens, Stuðmönnum, Emilíönu Torrini og Teiti Magnússyni, svo fátt eitt sé nefnt.

Hún hefur spilað inn á fjölmargar plötur og í hljómsveitum hinna ýmsu listamanna og árið 2017 hóf hún svo sinn sólóferil með útgáfu plötunnar Wood/work. Ingibjörg lagði stund á bassanám í Tónlistarskóla FÍH og tónsmíðar í Listaháskóla Íslands ásamt bassanámi. Einnig er hún með BA-gráður í latínu og forn-grísku frá HÍ. Að auki er Ingibjörg ein stofnmeðlima Stelpur rokka! félagasamtaka sem hófu störf árið 2012 við góðan orðstír.

Páll Ragnar Pálsson

Eftir að hafa leikið með hljómsveitinni Maus um árabil hóf Páll tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands árið 2004. Eftir að útskrifast þaðan þrem árum síðar flutti Páll til Tallinn þar sem hann lauk MA gráðu við Eistnesku tónlistarakademíuna árið 2009 og doktorsgráðu frá sama skóla í upphafi árs 2014. Kennari hans í Tallinn var Helena Tulve. Í námi sínu fékk Páll einkatíma hjá mörgum þekktum tónskáldum, þar á meðal Arvo Pärt.

Árið 2013 var Nostalgia fyrir fiðlu og hljómsveit frumflutt af Unu Sveinbjarnardóttir og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi var Ilan Volkov. Verkið var valið tónverk ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár. Í upphafi árs 2014 var Nostalgia tekin upp af RÚV í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi þá var Daníel Bjarnason.

Vorið 2013 vann Páll tvisvar sinnum með Kammersveit Tallinn þar sem þau frumfluttu eftir hann sitthvort verkið, þar á meðal Supremacy of Peace sem síðan þá hefur verið flutt í Reykjavík, Berlín, Osló, Ljubljana og víðsvegar um Sviss.

Á Myrkum músíkdögum 2014 voru tónleikar í Fríkirkjunni þar sem Caput og Tui Hirv fluttu dagskrá með verkum Páls. Sama ár var Páll staðartónskáld Sumartónleika í Skálholti 2014 þar sem Hljómeyki frumfluttu Ljóðaljóðin ásamt fleiri verka hans.

Í upphafi árs 2015 var Dämmerung fyrir sópran og strengjasveit frumflutt í Berlínarfílharmóníunni af Tui Hirv og Þýsk- Norrænu Ungfóníunni sem einnig pantaði verkið. Stjórnandi var Simone Bernandini. Verkið er samið við samnefnt ljóð Melittu Urbancic. Á Myrkum músíkdögum 2018 fluttu Tui Hirv og Kammersveit Reykjavíkur verkið ásamt Elblag kammersveitinni frá Póllandi. Stjórnandi var Bjarni Frímann.

Haustið 2015 frumflutti strengjasveitin SKARK Spiegeltunnel á Cycle hátíðinni í Kópavogi, en hátíðin pantaði verkið til flutnings ásamt samnefndu verki Ólafs Elíassonar. Sama sveit flutti verkið á Norrænum músíkdögum í Hörpu haustið 2016.

Á árinu 2017 frumflutti Sæunn Þorsteinsdóttir verk Páls Ragnars, Quake fyrir selló og hljómveit, fyrst með Norddeautscher Rundfunk hljómsveitinni í Elbfílharmóníunni í Hamborg svo með LA Phil í Los Angeles. Stjórnandi var Daníel Bjarnason.Verkið var sameiginleg pöntun frá hljómsveitunum. Í janúar 2018 fluttu Sæunn og Sinfóníuhljómsveit Íslands verkið á Myrkum músíkdögum með sama stjórnanda.

Quake vann fyrstu verðlaun á alþjóðlega tónskáldaþinginu í Búdapest 2018 og er Páll fyrsti íslendingurinn til að hljóta verðlaunin.

Auk ofantalins hafa verk Páls verið flutt á Listahátíð í Reykjavík, Norrænum músíkdögum, ISCM, Ung Nordisk Music í Helsinki, Estonian Music Days, Tallinn Music Week, Tartu Composers Festival og Icelandic Music Days í Amsterdam og Tallinn.

Áberandi er samstarf Páls og Tui Hirv, en hún hefur frumflutt mörg verka hans. Undir merkinu Konveier hafa þau svo skipulagt tónleika fyrir tónlistarhátíðir með verkum Páls og annarra tónskálda.

Í dag starfar Páll við tónsmíðar og er aðjúnkt við Listaháskóla Íslands

Rannveig Marta Sarc

Rannveig Marta Sarc, fæddist í Slóveníu 27. september 1995. Hún hóf fiðlunám 4 ára að aldri, fluttist til Íslands 2006 og varð þá nemandi Lilju Hjaltadóttur við Allegro Suzuki tónlistarskólann. Rannveig lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2014 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur en sótti þar einnig lágfiðlutíma hjá Þórunni Ósk Marinósdóttur.

Rannveig hefur nú lokið þriðja ári í bakkalárnámi við The Juilliard School í New York, er þar nemandi Laurie Smukler. Hún hefur haft sigur í mörgum keppnum, þar má nefna TEMSIG- slóvenska tónlistarkeppni fyrir ungmenni, Unga einleikara og Nótuna hérlendis. Sem einleikari hefur Rannveig komið fram með Slóvensku fílharmóníunni, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík og tvívegis með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Kammermúsík er henni mjög hugleikin og hefur hún tvívegis komið fram með Cammerarctica í tónleikaröðinni Mozart við kertaljós. Skólaárið 2016-2017 var strengjakvartett Rannveigar valinn sem heiðurskvartett í Juilliard-skólanum. Kvartettinn hélt tónleika meðal annars í Carnegie Hall og Alice Tully Hall í New York.

Rannveig hefur hlotið styrki frá meðal annars the American Scandinavian Society og úr Minningarsjóði Jean Pierre Jacquillat.

Rannveig hefur sótt ýmis mikilsvirt alþjóðleg námskeið og tónlistarhátíðir og mun í sumar taka þátt í Aspen Music Festival, þar sem hún mun sækja tíma hjá Donald Weilerstein og Sylviu Rosenberg. Hún hefur einnig lært hjá Pinchas Zukerman, Ronald Copes, Elmar Oliveira, Sigurbirni Bernharðssyni, Ara Þór Vilhjálmssyni, Ilya Kaler og Grigory Kalinovsky.

Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir

Sigrún lauk framhaldsskólaprófi í fiðluleik frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 2007 en hefur jafnframt lokið sjötta stigi frá Tónlistarskóla FÍH í djass-básúnuleik og öllum tilskildum hliðargreinum. Síðan lá leiðin til Hollands, í Codarts, Hoogeschool voor de Kunsten í Rotterdam. Þaðan lauk hún námi 2013, hlaut BA-gráðu í fiðlu- og básúnuleik frá heimstónlistardeild skólans.

Meðal tónlistarverkefna hennar á Íslandi má nefna flutning á tónlist eftir Ólöfu Arnalds í uppfærslu Nemendaleikhússins á Þrem systrum eftir Tsékof 2005, frumflutning á tónlist eftir Kjartan Valdemarsson með Stórsveit Reykjavíkur 2007. Hún sá um jazzgönguna á opnunardegi Jazzhátíðar Reykjavíkur 2016, þar sem brasilísk karnevaltónlist var á dagskrá. Einnig lék hún með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Stórsveit Reykjavíkur í Hofi sama ár. Hún hefur tekið þátt í mörgum verkefnum í tónleikaröðum Múlans í Reykjavík. Þá hefur hún komið fram í Freyjujazzi, tónleikum kvenna í jazzi í Listasafni Íslands.

Sigrún útsetti fyrir og kom fram með stórsveitinni SigBand á alþjóðlega jazzdeginum í Hörpu 30. apríl sl. Þar var leikin tónlist frá Kúbu og Puerto Rico. Og nú allra síðast má nefna tónleika í Mengi 10. maí með Imad Muhammad el Turk, tónskáldi frá Líbanon.

Sigrún hefur ferðast vítt og breitt um heiminn vegna tónleika og hátíða með ýmsum músíköntum og hljómsveitum, nefna má Gerardo Rosales, norsku sveitina Brass Brothers, Akkordeonale harmoníkuhátíðina, ZuleMax, salsahljómsveit kúbanska flautuleikarans og söngkonunnar Zulemu Blanco, sem skipuð er 12 konum. Hún hefur einnig ferðast, leikið og tekið upp með Sóleyju Stefánsdóttur, Björk Guðmundsdóttur og hljómsveitinni Of Monsters and Men. Síðast en ekki síst skulu nefndar nokkurra mánaða reisur hennar á eigin vegum til Brasilíu 2014, 2015 og 2016 þar sem hún hefur sökkt sér ofan í þá brasilísku tónlist sem er henni svo hugleikin.

Sigrún hefur á ýmsum tímum stundað kennslustörf við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og loks fjóra mánuði í sjálfboðavinnu hjá Favela Brass, tónlistarskóla sem býður frítt tónlistar- og enskunám handa börnum og unglingum í Pereira da Silva, einu af fátækrahverfum Rio de Janeiro, þarna kenndi hún meðal annars á málmblásturshljóðfæri.

Sigrún Kristbjörg leggur nú stund á mastersnám í listkennsludeild Listaháskóla Íslands, hefur þar lokið fyrsta ári en kennir að auki í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, tónfræði og forskóla.

Skúli Sverrisson

Skúli Sverrisson er fæddur 23. október 1966. Hann hóf atvinnuferil sem bassaleikari aðeins 14 ára gamall og lék á örfáum árum inn á fjölda vinsælla íslenskra hljómplatna áður en hann hélt til náms í Berklee tónlistarskólann í Boston, en eftir nám sitt þar fluttist hann til New York.

Síðustu tvo áratugi hefur Skúli byggt upp merkan og raunar einstakan feril sem annars vegar byggist á tónsmíðum og flutningi á eigin tónlist en hins vegar á margbreytilegu samstarfi við breiðan hóp alþjóðlegra listamanna, allt frá free jazz goðsögnum á borð við Wadada Leo Smith og Derek Bailey til brautryðjenda eins og Lou Reed, Jon Hassel, David Sylvian og Arto Lindsay, og eins nýrra tónskálda/flytjenda, svo sem Ryuichi Sakamoto, Jóhanns Jóhannssonar, Hildar Guðnadóttur og Sidsel Endresen.

Skúli er einnig þekktur fyrir starf sitt sem listrænn ráðunautur og upptökustjóri Ólafar Arnalds, upptökur með hljómsveitinni Blonde Redhead og sem tónlistarstjóri hinnar víðfrægu fjöllistakonu Laurie Anderson. Skúli hefur unnið nýja tónlist með listamönnum eins og Anthony Burr, Óskari Guðjónssyni, Davíð Þór Jónssyni og Eyvind Kang og starfað með hljómsveitunum Pachora, Alas No Axis, The Allan Holdsworth Group og The Ben Monder Group.

Skúli hefur komið fram á yfir 100 hljómplötum og leikið vítt og breitt um heiminn með áðurnefndum listamönnum. Hann hefur unnið sjö sinnum til Íslensku Tónlistarverðlaunanna og tvisvar verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Skúli hefur oftar en einu sinni leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hann starfaði einnig með hljómsveitinni þegar hann samdi verkið Kaldan Sólargeisla við ljóðabálk Guðrúnar Evu Mínervudóttur fyrir hljómsveitina og rödd Ólafar Arnalds sem flutt var á Tectonics hátíðinni í apríl 2014.

Af nýlegum verkum Skúla Sverrissonar má nefna einleik hans í tónlist Jóhanns Jóhannssonar fyrir kvikmyndina Sicario og aðkomu hans sem meðhöfundur að verkinu Glacier sem var hluti af tónlist Ruichi Sakamoto í kvikmyndinni the Revenant.

Einnig ber að nefna Miröndu, nýtt píanóeinleiksverk fyrir Víking Heiðar Ólafsson, sem frumflutt var á opnunartónleikum Reykjavík Midsummer Music 16. júní 2016. Hljómplatan Saumur, með tónlist Skúla, Hilmars Jenssonar og Arve Henriksen er einnig nýútkomin.

Skúli hefur lengst af ferli sínum lifað og starfað í New York. Síðan hann fluttist aftur til Íslands árið 2012 hafa honum staðið nærri málefni lifandi tónlistar. Hann er einn af stofnendum menningarmiðstöðvarinnar Mengis á Óðinsgötu sem hóf starfsemi sína í desember 2013 og hefur verið undir listrænni stjórn hans frá upphafi. Í Mengi er sköpun og flutningur nýrrar tónlistar í fyrirrúmi og hefur staðurinn fest sig í sessi sem sannkallaður suðupottur í menningarlífi borgarinnar.

Sunna Gunnlaugsdóttir

Sunna Gunnlaugsdóttir er fædd 11. maí 1970. Hún stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og í William Paterson College í Bandaríkjunum. Hún hefur gefið út fjölmarga hljómdiska, einn með útsetningum á íslenskum þjóðlögum og sjö með eigin tónsmíðum, þar af einn við íslensk ljóð. Sunna hefur komið fram í Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Evrópu og margoft verið tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna.

Á síðustu árum hefur Sunna lagt mesta áherslu á tríó sitt með þeim Þorgrími Jónssyni og Scott McLemore og hafa þau verið iðin við að koma fram erlendis. Tríóið hefur fengið frábærar móttökur víða um heim fyrir jazztónlist sem sögð er lýrísk og aðgengileg og gjarna talin sameina eldmóð hins bandaríska og þokka evrópsks jazz. Tveir diskar tríósins, Long Pair Bond (2011) og Distilled (2013) hafa hlotið mikið lof og verið valdir meðal bestu diska ársins á AllAboutJazz.com, Jazzwrap.com, Rhapsody.com og fleiri vefsíðum.

Tríó Sunnu var Tónlistarhópur Reykjavíkur 2013 og einn af fulltrúum Íslands á hátíðinni Nordic Cool í Kennedy Center. Þau hafa komið fram á jazzhátíðum víða um heim þ.á.m. í Osló, London, Bremen, Washington og Rochester. Tríóið hefur nýlega lokið tónleikaferð um 5 evrópulönd og framundan er tónleikaferð um Bandaríkin og Kanada.

Sunna hefur einnig starfað með hollenska bassaklarinettuleikarann Maarten Ornstein og fengu þau 4 stjörnu gagnrýni í Hollenska dagblaðinu Het Parool fyrir tónleika sína í Amsterdam 9 maí sl. Heima hefur Sunna nýverið fengið til liðs við sig söngvarann Bergþór Pálsson. Sunna kennir við tónlistarskóla Garðabæjar, Reykjanesbæjar og Mosfellsbæjar.

Kristinn H. Árnason

Kristinn H. Árnason hóf gítarnám hjá Gunnari H. Jónssyni í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og lauk burtfararprófi árið 1983. Hann stundaði framhaldsnám við Manhattan School of Music og lauk þaðan prófi árið 1987. Einnig lærði hann í Englandi hjá Gordon Crosskey og á Spáni hjá José Tomas. Á námsárum sínum lék Kristinn m.a. fyrir Hans Werner Henze, Manuel Barrueco og Andrés Segovia.

Kristinn hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og einnig leikið á tónleikum vestan hafs og austan, meðal annars í Wigmore Hall í London og kammersal Concertgebouw í Amsterdam, á Norðurlöndum, Ítalíu og í Bandaríkjunum. Hann hefur hljóðritað fyrir hljóðvarp og sjónvarp og þegið starfslaun listamanna frá íslenska ríkinu. Kristinn hefur leikið inn á fjölda geisladiska og hlaut diskur hans með verkum eftir Sor og Ponce Íslensku tónlistarverðlaunin árið 1997. Nýjasti geisladiskur hans kom út árið 2013 og ber nafnið Transfiguratio. Árið 2007 hlaut hann verðlaun úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns.

Daníel Bjarnason

Daníel Bjarnason stundaði nám í píanóleik, hljómsveitarstjórn og tónsmíðum í Reykjavík áður en hann fór til framhaldsnáms í hljómsveitarstjórn í Freiburg í Þýskalandi.

Daníel hefur unnið með fjölda hljómsveita og má þar m.a. nefna Los Angeles Philharmonic, Ulster Orchestra, Winnipeg Symphony Orchestra, Britten Sinfonia, Adelaide Symphony Orchestra, Nieuw Ensemble Amsterdam og Sinfonietta Cracovia auk Sinfóníu-hljómsveitar Íslands og Hljómsveitar Íslensku óperunnar. Einnig hefur hann starfað með fjölmörgum höfundum og flytjendum svo sem Sigurrós, Efterklang, Ólöfu Arnalds og Hjaltalín.

Daníel hefur gefið út tvær plötur hjá plötufyrirtækinu Bedroom Community, Processions (2010) ogSolaris (2012). Sú síðarnefnda var unnin í samstarfi við raftónskáldið Ben Frost.  Þriðja plata Daníels, Over Light Earth, kemur út í haust en á henni verður að finna nýleg hljómsveitarverk.  

Daníel hefur hlotið fjölda viðurkenninga og nýlega hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónskáld ársins auk þess að hljóta Edduverðlaunin fyrir tónlistina við kvikmynd Baltasars Kormáks,Djúpið, sem hann gerði ásamt Ben Frost. Daníel hlaut verðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns árið 2009.

Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir

Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir harmóníkuleikari stundaði nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar naut hún leiðsagnar Messíönu Marzellíusdóttur, Vadim Fedorov og Hrólfs Vagnssonar. Haustið 2004 stundaði Helga nám í tónlistarskólanum la CNIMA í Frakklandi. Vorið 2010 lauk Helga B.Mus. prófi frá Listaháskóla Íslands þar sem aðal kennarar hennar voru Tatu Kantomaa og Vadim Fedorov.

Eftir útskrift hlaut Helga styrk úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen og ári síðar verðlaun úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns gítarleikara. Helga hefur leikið með Íslensku Óperunni, Sinfóníuhljómsveit Íslands, CAPUT, Fimm í tangó og í uppfærslum hjá Þjóðleikhúsinu, og starfaði auk þess sem harmonikukennari á höfuðborgarsvæðinu um nokkurra ára skeið.

Síðastliðinn vetur hefur Helga stundað einkanám í klassískum harmonikuleik hjá prófessor Geir Draugsvoll sem kennir við Konunglega Danska Tónlistarháskólann (DKDM) en Helga hlaut nýlega inngöngu í mastersnám þar og mun því hefja formlegt nám við skólann næsta haust.

Ari Bragi Kárason

Ari Bragi Kárason er uppalinn á Seltjarnarnesi þar sem hann hóf nám við Tónlistarskóla Seltjarnarness ungur að aldri og byrjaði að læra á klarínettu undir handleiðslu Önnu Benassi og seinna Lárusar H. Grímssonar. Hann hóf nám á trompet 9 ára gamall undir handleiðslu föður síns og svo seinna hjá Kjartani Hákonarsyni. Hann lauk miðstigi í klassískum trompetleik frá Tónlistarskóla Seltjarnarness og færði sig þá um set í Tónlistarskóla F.Í.H. Kennarar hans þar voru Eiríkur Örn Pálsson og Ásgeir H. Steingrímsson. Hann stundaði einnig einkatíma hjá Sigurði Flosasyni. Í september 2008 hóf Ari Bragi nám við New School for Jazz and Contemporary Music í New York.

Ari Bragi var á meðal 16 sem hlutu afreksverðlaun á 3000 manna námskeiði sumarið 2006 við hinn virta Interlochen-skóla í Michigan í Bandaríkjunum. Árið 2008 var hann fyrstur til að fá styrk úr Minningarsjóði Árna Scheving. Árið 2011 hlaut hann verðlaun í flokknum Bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum. Árið 2012 hlaut hann styrk úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns.

Ari Bragi lék nýlega inná nýjustu hljómplötu saxófónleikarans Jóels Pálssonar með Eyþóri Gunnarssyni, Einari Scheving og Davíð Þór Jónssyni. Hann hefur einnig leikið í hljóðritunum með m.a. Noruh Jones, Jeff Tain Watts, Grizzly Bear, Sigur Rós, Hjaltalín og Stórsveit Reykjavíkur.

Styrkja sjóðinn

Hægt er að styrkja sjóðinn með því að leggja inn á bankareikning:

0513-18-430830

kt. 650303-3180


Kaupa minningarkort

Hægt er að kaupa minningarkort með því að senda tölvupóst á thorarinn@eldjarn.net